• Urtönd

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Urtandarsteggur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Kolla og steggur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Urtönd er minnsta öndin sem verpur hér og raunar minnsta önd Evrópu. Hún er afar snör í snúningum og stygg. Í fjarska virðist steggurinn vera dökkgrár með dökkt höfuð. Hann er dökkrauðbrúnn á höfði og hálsi, með græna, ljósbrydda geira frá augum og aftur á hnakka. Bringan er gulleit með dökkum doppum, búkur að öðru leyti grár að undanskildum svörtum gumpi og undirgumpi, með rjómagulum flekkjum á hliðum. Svartar og hvítar axlafjaðrirnar mynda áberandi rákir á hliðum þegar vængir eru aðfelldir. Í felubúningi er steggur eins og kolla, með dökkan koll og augnrák. Bæði kyn eru með hvítan kvið og dökkgræna vængspegla með áberandi hvítum framjaðri.

Þessi litli, kviki og hraðfleygi fugl er hálfgerður náttfugl og mest á ferli í ljósaskiptunum og á nóttunni. Oft sjást urtendur fljúga lágt í þéttum, litlum hópi og svipar þá til vaðfugla. Urtöndin hefur sig bratt til flugs, er lítil og þéttvaxin með hnöttótt höfuð, stuttan háls og mjóa vængi. Hún er félagslynd utan varptíma en afar stygg og felugjörn.


Fæða og fæðuhættir:
Svipað fæðuval og fæðuhættir og hjá öðrum buslöndum. Etur fræ og græna plöntuhluta, einnig ber og á varptíma er dýrafæða uppistaðan.


Fræðiheiti: Anas crecca

Kjörlendi og varpstöðvar

Kjörlendi urtandar er á sumrin vot svæði á láglendi, t.d. grunnar tjarnir, skurðir, kílar, lygnar lindár, blautar mýrar og flóar. Hreiðrið er svipað og hjá öðrum buslöndum, venjulega vel falið í gróðri. Heldur sig á veturna bæði á grunnum vogum eða víkum og á íslausu ferskvatni og jarðhitasvæðum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Urtönd er að mestu farfugl. Hún er láglendisfugl en finnst einnig í gróðurvinjum á hálendinu. Hefur aðallega vetursetu á Bretlandseyjum, einkum Írlandi, en fer einnig víðar um Vestur-Evrópu. Yfir 1000 fuglar eru staðfuglar og dvelja aðallega á Suður- og Suðvesturlandi yfir veturinn. Varpheimkynni eru víða í Evrópu og Asíu.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR