• Skrofa

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Skrofa er meðalstór, rennilegur og grannvaxinn sjófugl af ættbálki pípunasa. Skrofa er svört að ofan og hvít að neðan með langa og mjóa vængi. Hvíti liturinn að neðan er bryddur svörtu og vængbroddar og stéljaðrar eru dökkir. Stélið er stutt. Ungfugl er eins og fullorðinn og kynin eins.

Skrofur eru oftast í hópum. Þær koma aðeins í vörpin að næturlagi en safnast í stóra hópa nærri þeim síðdegis. Skrofan flýgur lágt yfir haffleti og veltir sér á fluginu, svo til að sjá eru hóparnir annaðhvort svartir eða hvítir. Hún er afar flugfim. Á sundi minnir skrofa á svartfugl en er léttsyndari. Tekur æti bæði fljúgandi og á sundi. Eltir sjaldan skip. Þögul, nema á varpstöðvum heyrast ýmiss konar óp, skrækir og vein.


Fæða og fæðuhættir:
Leitar ætis í hópum, tekur fisk (t.d. sandsíli og síld) og smokkfisk, kafar grunnt frá yfirborði eða stingur sér úr lítilli hæð.


Fræðiheiti: Puffinus puffinus

Kjörlendi og varpstöðvar

Úthafsfugl, sem kemur ekki á land nema til að verpa. Verpur í þéttum byggðum á grasi vöxnum eyjum og höfðum. Gerir sér hreiður í holu sem skrofan grefur í svörð, oft innan um lunda.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Skrofan er farfugl. Hún verpur í Vestmannaeyjum. Skrofunni virðist hafa fækkað, eins og flestum sjófuglum, vegna fæðuskorts á síðustu árum. Sést víða við Suður- og Suðvesturland frá vori fram á haust. Vetrarstöðvar eru við strendur Suður-Ameríku undan ströndum sunnanverðar Brasilíu, Paragvæ og Argentínu. Höfuðstöðvar skrofunnar eru á Bretlandseyjum en hún hefur nýlega numið land vestanhafs á Nýfundnalandi. Verpur auk þess í Færeyjum, lítils háttar á eyjum við Bretagne-skaga í Frakklandi, á Azoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum.

Varpstöðvar/sumarútbreiðsla
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

UNGAR