• Sílamáfur

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Nýfleygur ungfugl

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Tveggja ára sílamáfur

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Biðilsatferli

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Sílamáfur líkist svartbak en er allmiklu minni og nettari. Fullorðinn sílamáfur er dökkgrár á baki og yfirvængjum, með áberandi dekkri vængbrodda, svarta með hvítum doppum. Er að öðru leyti hvítur á fiður. Ungfugl á fyrsta hausti er allur dökkflikróttur, dekkstur stóru máfanna, líkist silfurmáfi en handflugfjaðrir og stórþökur eru dekkri (enginn „spegill“), stélbandið er breiðara og gumpurinn hlutfallslega ljósari en á silfurmáfi. Búningaskipti á öðru og þriðja ári eru svipuð og hjá silfurmáfi og svartbaki, þeir lýsast að neðan og dökkna að ofan og fá fullan búning á fjórða ári. Kynin eru eins, en karlfuglinn er heldur stærri.

Vængir sílamáfs eru mjórri og odddregnari en svartbaks og ná lengra aftur fyrir stélið aðfelldir. Hann er léttur á sundi. Sílamáfur er félagslyndur og algengur í þéttbýli, spakari en svartbakur. Hann sækir meira í skordýr en aðrir stórir máfar.


Fæða og fæðuhættir:
Hefur fjölbreyttan matseðil, en sandsíli og annar smáfiskur er þar ofarlega á lista. Leitar meira ætis á landi en aðrir stórir máfar og tekur þá m.a. skordýr og orma og fer í berjamó á haustin. Önnur fæða er t.d. hræ, úrgangur, egg og fuglsungar.


Fræðiheiti: Larus fuscus

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur í mólendi og graslendi, á áreyrum, holtum, söndum og uppi á fjöllum, oftast við ströndina en einnig inn til landsins, stundum í félagsskap við svartbak. Hreiðrið er gert úr mosa, sinu og öðrum gróðri, oft staðsett milli steina eða þúfna.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Sílamáfur er farfugl, hann er nýr landnemi á Íslandi og fór að verpa hér að staðaldri á þriðja áratugi 20. aldarinnar, fyrst á Suður- og Suðvesturlandi en nú finnst hann víða um land og fer honum fjölgandi, sums staðar á kostnað svartbaks að því er virðist. Hann er eini máfurinn sem er alger farfugl, en kemur snemma, venjulega með fyrstu farfuglum, oftast nær á góunni, meðalkomutími fyrstu fugla 1998-2013 var 25. febrúar. Hann er því fyrsti fleygi vorboðinn og hefur fengið viðurnefið „vorboðinn hrjúfi“. Hann dvelur við strendur Pýreneaskaga og Norðvestur-Afríku á veturna. Heimkynni hans eru annars í Vestur- og Norður-Evrópu, austur til Síberíu.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR