• Svartbakur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Svartbakur á fyrsta vetri

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Svartbakur á öðrum vetri

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Svartbakur eða veiðibjalla er stærstur máfa og líkist sílamáfi í útliti. Fullorðinn fugl er svartur á baki og yfirvængjum en annars hvítur. Vængbroddar eru svartir með hvítum doppum, samlitir yfirvængnum. Á veturna er hann með ljósbrúna díla á höfði. Ungfugl er ljósgráleitur um höfuð, bringu og kvið en annars dökkflikróttur, með dökka vængbrodda og breitt dökkt stélband. Búningaskipti ungfugla eru svipuð og hjá silfurmáfi og sílamáfi, á öðrum og þriðja vetri lýsast ljósu hlutarnir og bak og yfirvængir dökkna. Fullorðnir fuglar verða best greindir frá sílamáfi á stærð, dekkra baki, samlitum vængbroddum og bleikum fótum. Vængir eru hlutfallslega styttri og breiðari, fætur styttri og goggur sterklegri en á sílamáfi. Ungfuglar eru mun ljósari á höfði og að neðan, þeir eru mun stærri en ungir silfurmáfar og sílamáfar sem þeir líkjast annars mest. Kynin eru eins, en karlfuglinn er heldur stærri.

Þessi stóri fugl er ávallt tignarlegur að sjá. Hann flýgur með hægum, kraftmiklum vængjatökum. Er félagslyndur og oft með öðrum máfum. Gefur frá sér djúpt og snöggt hlakk, er djúpraddaðastur máfa.


Fæða og fæðuhættir:
Svo gott sem alæta, þó sandsíli og loðna sé aðalfæðan. Tekur krabba, krossfiska og aðra hryggleysingja. Fer einnig í hræ, fiskúrgang, á ruslahauga og etur egg og unga fugla.


Fræðiheiti: Larus marinus

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur í margs konar kjörlendi við sjó, t.d. á söndum, eyjum, skerjum, í mýrum og á fjallskollum, einnig inn til landsins á eyjum í vötnum og á áreyrum, í hálendisvinjum eða jafnvel á jökulskerjum. Hreiðrið er allmikil dyngja, gerð úr sprekum, þangi, grasi og lyngi, oft á þúfu eða annarri mishæð. Svartbakur heldur sig á grunnsævi eða við strendur á vetrum og sést stundum langt inni í landi.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Svartbakur er að mestu staðfugl. Hann var útbreiddur og algengur um land allt en hefur fækkað mikið á síðustu árum. Eitthvað af ungfugli hefur vetursetu í Færeyjum og á Bretlandseyjum. Heimkynni eru beggja vegna Norður-Atlantshafs, í Evrópu suður til Frakklands.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR