• Bjartmáfur

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Bjartmáfur á öðrum vetri

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Bjartmáfur á öðrum vetri

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Bjartmáfur á fyrsta vetri

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Bjartmáfur er vetrargestur sem líkist mjög hvítmáfi en er minni, fíngerðari, með hnöttóttara höfuð og brattara enni, frábrugðið flötu höfði hvítmáfs. Búningar og búningaskipti fullorðins bjartmáfs og ungfugls eru svipuð og hjá hvítmáfi. Kynin eru eins, en karlfuglinn er heldur stærri.

Á sumrin hefur fuglinn rauðlitan augnhring. Vængir bjartmáfs eru lengri og mjórri en hvítmáfs og ná lengra aftur fyrir stélið, hann virðist léttari og fimari á flugi. Er mun léttari á sundi en hvítmáfur, minnir á fýl, afturhlutinn vísar á ská upp á við en á hvítmáfi virðist hann láréttur. Gefur frá sér svipuð hljóð og hvítmáfur, er skrækari en silfurmáfur.


Fæða og fæðuhættir:
Fiskur, t.d. sandsíli og loðna, svo og fiskúrgangur. Einnig þangflugur, krabbar og skeldýr. Aflar sér aðallega fæðu á sundi, hleypur stundum eftir yfirborðinu með blakandi vængi og tínir upp agnir.


Fræðiheiti: Larus glaucoides

Kjörlendi og varpstöðvar

Bjartmáfur heldur sig mest með ströndum fram, oft með öðrum máfum. Sést sjaldan á landi, þó stundum á tjörnum og sjávarlónum, helst síðla vetrar eða snemma vors.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Bjartmáfur er vetrargestur frá varpstöðvum á Grænlandi, Baffinslandi og nálægum eyjum, oft í stórum hópum. Fullorðnir fuglar halda fyrr frá landinu á útmánuðum, eru að mestu farnir í marslok, en ungfuglar sjást áfram, fram í maí. Sést stöku sinnum á sumrin.

Vor og haust
Varp- og vetrarstöðvar
Litaskýringar
Fuglinn verpur ekki á Íslandi