• Haförn

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Haförn – ungfugl

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Örninn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins, með yfir 2 m vænghaf, oft nefndur konungur fuglanna. Aðallitur er brúnn, fullorðinn örn er gulur eða ljósbrúnn á höfði, aftur á bak og niður á bringu, fjaðrajaðrar ljósir á baki og yfirvæng (hann er „hreistraður“). Fleyglaga stélið er hvítt. Ungfugl er allur dekkri, mógul- og rauðbrúnflikróttur að ofan, ljósari að neðan, sérstaklega á bringu. Hann lýsist síðan smátt og smátt með aldrinum, stél á undan höfði, verður fulltíða sex ára. Kvenfuglinn, assan, er töluvert stærri en karlfuglinn.

Haförn er auðgreindur á stærð og lögun og ferhyrndum vængjunum með ystu handflugfjaðrir vel aðskildar (fingraðar). Svífur gjarnan en er þunglamalegur í flugtaki. Oft má sjá úr mikilli fjarlægð hvar örninn svífur á þöndum vængjum yfir landi eða hafi og leitar sér að bráð, eða hvar hann situr langtímum saman kyrr á sama útsýnisstaðnum. Venjulega er hann styggur og friðsamur en getur verið ágengur við hreiður. Ernir eru oftast stakir, í pörum eða smáhópum.


Fæða og fæðuhættir:
Örninn veiðir sér til matar og er aðalbráðin fýll sem hann tekur á flugi, æðarfugl tekur hann á sjó og fiskur (hrognkelsi, laxfiskar) sem hann grípur við yfirborð. Lundi og máfar eru einnig teknir. Hann etur gjarnan hræ og rænir stundum æti frá öðrum fuglum.


Fræðiheiti: Haliaeetus albicilla

Kjörlendi og varpstöðvar

Kjörlendi er strendur með miklu útfiri, einnig fiskauðugar ár og vötn. Örninn verpur í hólmum, á klettasyllum, stöpum í bröttum hlíðum eða hraunum. Hreiðrið er stundum allmikill birkilaupur en oftast lauslega samsett dyngja úr þangi, hvanndrjólum og grasi.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Haförninn er staðfugl. Hann var áður dreifður um land allt en höfuðstöðvarnar hafa ávallt verið á Vesturlandi. Þar hélt hann velli þrátt fyrir skefjalausar ofsóknir undir lok 19. aldar. Hann var alfriðaður 1913 en var þrátt fyrir það nærri útdauður um 1960, þá voru aðeins um 20 hjón í stofninum. Á síðustu áratugum hefur honum fjölgað hægt en örugglega og var stofninn 75 pör árið 2016. Annars staðar verpa hafernir frá Vestur-Grænlandi austur um Evrópu og Asíu að Kyrrahafi.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR