• Rjúpa

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Rjúpa að vori til, karrinn til vinstri

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Rjúpa að hausti til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Rjúpa, kvenfugl á hreiðri

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Rjúpa - kvenfugl að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Rjúpukarri að sumri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Rjúpur í vetrarbúningi, kvenfuglinn framar

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Rjúpa eða fjallrjúpa er eini hænsnfuglinn sem lifir villtur á Íslandi. Hún er hnellin og vængirnir stuttir og breiðir. Hún fellir bolfjaðrir þrisvar á ári en flugfjaðrir aðeins einu sinni. Varpbúningur rjúpu er að mestu brúnn, karlfuglinn er grádílóttur en kvenfuglinn guldílótt. Síðsumars klæðast karrarnir grábrúnum haustbúningi. Vetrarbúningur er hvítur, með fiðraða fætur. Bæði kyn eru með rauða kamba ofan augna og í tilhugalífinu eru þeir oft mjög áberandi á körrum. Kviðurinn er hvítur árið um kring, sem og flugfjaðrir, en stélfjaðrirnar svartar. Karrinn er með breiða svarta augnrák frá goggi að auga, en kvenfuglinn er með hvítt andlit, stundum grannan yrjóttan taum milli goggs og augna.

Rjúpan flýgur hratt og lágt með hröðum vængjatökum, lætur sig svífa með sveigða vængi. Á auðvelt með gang, hleypur oft og klifrar í trjám. Karrar eru áberandi á vorin, tylla sér á háa staði og eru þá auðveld bráð fyrir fálka, alhvítir í dökku umhverfi. Ungar verða fleygir á 10 dögum, löngu áður en þeir ná fullri stærð. Rjúpan er að jafnaði félagslynd.


Fæða og fæðuhættir:
Jurtaæta, á sumrin etur hún blóm, blöð og aldin (ber og lauka kornsúrunnar), á veturna brum, stöngla, rekla og sígræn lauf. Grasvíðir er mikilvæg vetrarfæða, meðan næst til hans. Litlir ungar eta skordýr og aðra hryggleysingja í bland við jurtafæðu.


Fræðiheiti: Lagopus mutus

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur á lyngheiðum, í móum, kjarri, skóglendi og grónum hraunum frá fjöru til fjalls. Hreiðrið er fóðruð skál, vel falin í runnum eða lyngi. Rjúpur halda til fjalla á haustin en þegar jarðbönn hamla beit leita þær niður á láglendi og halda þá til í hlíðum, kjarri og jafnvel í byggð, kvenfuglar og ungfuglar flakka meira, karrarnir halda sig stundum í varplöndunum árið um kring.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Rjúpan er staðfugl. Hún finnst um land allt, en er algengust í Þingeyjarsýslum. Stofnstærð sveiflast allreglubundið og um 10 ár líða á milli hámarka, allt að tífaldur munur getur verið á stofnstærð í lágmarki og hámarki. Heimkynni rjúpu eru allt umhverfis norðurheimskautið en einnig í Ölpunum og Pýreneafjöllum. Grænlenskar rjúpur hafa fundist hér á landi. Þær eru lítið eitt stærri en íslenskar og hafa hvíta stafi í handflugfjöðrum.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR