• Skúfönd

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Skúfandarkolla

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Skúfandarsteggir í felubúningi (fjaðrafelli)

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Skúföndin er fremur lítil og nett önd og er algengasta kaföndin á láglendi. Hún er mjög dökk, steggurinn er með svart, blágljáandi, hnöttótt höfuð með lafandi hnakkaskúf. Síður eru hvítar, svo og kviður, undirvængir og vængbelti, fjaðurhamur annars svartur eða brúnsvartur. Í felubúningi er hann grár á síðum með stuttan skúf, að öðru leyti eins og í skrautbúningi. Á fyrsta vetri eru síður brúnflikróttar. Kollan er dökkbrún að ofan, með ljósflikróttar síður, hvítan kvið og vængbelti. Flestar hafa hvítan blett við goggrót og ljósan undirgumpur sem dökknar á sumrin. Á þeim vottar fyrir hnakkaskúfi. Ungfuglar eru dekkri en kvenfugl. Skúfönd svipar til duggandar en er grennri, með annað höfuðlag, styttri háls og dekkri búning.

Skúfönd er félagslynd á öllum árstímum. Hún flýgur hratt með hröðum vængjatökum, er djúpsynd og fimur kafari en þung til flugs og hleypur á vatni í flugtaki eins og aðrar kafendur.


Fæða og fæðuhættir:
Skúfönd er dýraæta sem kafar til botns eftir smádýrum, t.d. mýlirfum, krabbadýrum, vatnabobbum og ertuskeljum. Þörungar og hornsíli eru í litlum mæli á matseðli skúfandar.


Fræðiheiti: Aythya fuligula

Kjörlendi og varpstöðvar

Kjörlendi á sumrin eru lífauðug, grunn vötn og tjarnir. Skúfönd verpur oft í dreifðum byggðum, gjarnan innan um hettumáf og kríu. Hreiðrið er vel falið í þéttum gróðri nærri vatni, fóðrað með sinu og dúni. Heldur sig á vetrum bæði á sjó og opnu ferskvatni.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Skúföndin er að mestu farfugl. Hún er láglendisfugl sem er sjaldséður á hálendinu. Nam hér land í lok 19. aldar. Er nú sennilega algengasta kaföndin að æðarfugli undanskildum og hefur slegið duggöndinni við sem algengasta öndin á Mývatni. Skúfönd er aðallega á Írlandi á vetrum en einnig mikið á Bretlandi og ungfuglar leggja nokkuð leið sína suður til Frakklands og Spánar og allt til Marokkó. Allt að 500–1.000 fuglar halda til á Suðvestur- og Suðurlandi og Mývatni á veturna. Varpstöðvar skúfandar eru í Evrópu og Asíu, allt austur að Kyrrahafi.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR