• Heiðagæs

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Gæs á hreiðri, gassinn á verði

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Heiðagæsin er einn af einkennisfuglum miðhálendisins, nokkru minni en grágæs og hálsinn hlutfallslega styttri. Höfuð og háls eru kaffibrún og skera sig frá blágráum búknum. Ljósari, með fölbleikum blæ á neðanverðum hálsi og bringu, niður á kvið. Undirstél og undirgumpur eru hvít, síður dökkflikróttar. Framvængur er blágrár, dekkri en á grágæs. Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, ungfugl þó dekkri. Gassinn er sjónarmun stærri en gæsin.

Heiðagæs er félagslynd á öllum tímum árs. Hún flýgur með hröðum vængjatökum og í þéttum hópum, byltir sér meira og er léttari á flugi en grágæs. Lítið höfuð og stuttur háls eru einkennandi á flugi.


Fæða og fæðuhættir:
Grasbítur eins og aðrar gæsir, sækja nokkuð í ræktarland á vorin, en bíta annars einkum mýragróður: starir, hálmgresi, fífu, einnig elftingar og kornsúru. Síðsumars leggjast þær í berjamó og kornsúrurætur.


Fræðiheiti: Anser barachyrhynchus

Kjörlendi og varpstöðvar

Varpstöðvarnar eru í votlendum hálendisvinjum, meðfram ám og lækjum, oft í gljúfrum. Heiðagæs gerir sér hreiður á þúfnakolli eða annarri mishæð, eða á klettasyllu, og klæðir að innan með stráum og dúni. Sami hreiðurstaður er oft notaður ár eftir ár. Hluti gæsanna hefur viðdvöl á láglendi á fartíma, aðallega á vorin og þá oftast í ræktuðu landi. Meirihlutinn flýgur þó rakleitt inn á hálendið á vorin og tekur sig þaðan upp á haustin.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Heiðagæs er farfugl. Aðalvarpstöðvarnar eru á hálendinu en heiðagæs hefur verið að breiðast út niður með helstu stórám og víðar og verpur nú sums staðar á láglendi, allt niður undir sjávarmál. Hefur fækkað í Þjórsárverum, sem voru lengi stærsta heiðagæsavarp í heimi. Vetrarstöðvar heiðagæsar eru í Skotlandi og Norður-Englandi. Meirihluti íslenskra geldfugla fer til Grænlands í lok júní til að fella flugfjaðrir og grænlenskir varpfuglar fara um Ísland vor og haust. Íslensk-grænlenski stofninn hefur stækkað mjög á undanförnum áratugum, úr 23.000 fuglum árið 1952 í 390.000 fugla haustið 2014. Annar stofn er á Svalbarða.

Varpstöðvar
Vetur/fellistöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR