• Hávella

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Steggur að sumri

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Steggur að vetri

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Kolla með unga

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Tveir steggir og kolla í sumarbúningi

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Tveir steggir og kolla í vetrarbúningi

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Hávella er einn af einkennisfuglum hálendisvatna og tjarna. Fremur lítil kafönd, eina öndin sem hefur ljósan búk á veturna og aldökka vængi. Skiptir oftar um fjaðurham en aðrar endur. Steggur er með áberandi langar miðfjaðrir stéls, nema í felli síðsumars. Á sumrin er hann dökkbrúnn um höfuð, háls, bringu og bak, með hvíta bletti á höfuðhliðum og hvítur á síðum. Hann er mun ljósari á veturna, er þá ljós um höfuð, bak og ofanverða bringu með dökka vangabletti. Kolla er á veturna með dökkt og ljóst höfuðmynstur, breiðan dökkan hálshring en annars grábrún að ofan og hvít að neðan. Á sumrin er hún dekkri á höfði og bringu og dökkbrún að ofan. Bæði kyn eru með aldökka vængi án spegla.

Hávella er hraðfleyg og vængjatökin sérkennileg, hún flýgur lágt í óreglulegum hópum, vaggandi til hliðanna, og sýnir til skiptis dökkan og ljósan lit. Hún er afar fimur sundfugl og kafari og lætur brimrót ekki hindra sig. Á pörunartímanum lyftir karlfuglinn löngu stélfjöðrunum upp úr vatninu og syndir gólandi í hringi kringum kvenfuglinn. Félagslynd og fremur spök en óróleg og sífellt að fljúga upp eða kafa.


Fæða og fæðuhættir:
Dýraæta, á ferskvatni lifir hún aðallega á krabbadýrunum kornátu og skötuormi, en mýlirfur skipa einnig háan sess í fæðuvalinu. Á sjó kafar hún til botns eftir smávöxnum botndýrum (samlokum, marflóm og ormum), ólíkt öðrum öndum tekur hún einnig ljósátu á dýpra vatni. Mestur kafari meðal anda. Steggurinn gefur frá sér hávært jóðl, „há-á-vella“, en kollan lægri hljóð.


Fræðiheiti: Clangula hyemalis

Kjörlendi og varpstöðvar

Hávella verpur bæði inn til landsins og við sjávartjarnir og vötn á láglendi. Hreiðrið er venjulega nærri vatni, vel falið í gróðri og er hefðbundið andahreiður. Steggir fella fjaðrir aðallega á sjó. Dvelur á sjó á veturna, bæði við ströndina og á dýpra vatni þar sem hún lifir á svifi.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Hávella er að nokkru farfugl. Hún er mun algengari á láglendi norðanlands en sunnan. Á veturna sjást hér bæði íslenskir fuglar og vetrargestir frá norðlægari löndum. Hluti íslenskra fugla hefur vetursetu við Suðvestur-Grænland. Á fartíma og á veturna má sjá stóra hópa á sjó, oft talsvert frá landi. Hávellan kýs helst kalt loftslag og verpur við strendur heimskautalandanna á norðurhveli jarðar.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR