Söngur
Allir fuglar gefa frá sér hljóð en víst er að þau eru misfögur. Hljóð úr sama fuglinum geta verið fjölbreytt. Stundum gaggar hann eða gargar eða syngur aríur.
Hljóðin verða til í líffæri sem er við enda barkans. Vöðvar þess geta breytt um lögun, dragast saman eða slakkna, og þar með breytast hljóðin sem heyrast. Söngurinn er ein af aðferðum fuglanna til tjáningar.
Á vorin er söngurinn mestur. Þá eru fuglarnir í miklum samskiptum í kringum pörun, varp og uppeldi. Margar fuglategundir helga sér óðal á þessum tíma og er röddinni ákaft beitt til þess að verja það.
Þrösturinn er söngfugl góður og flytur mikil tónverk á vorin. Þetta eru karlfuglar sem eru að láta aðra fugla vita að hér sé hann, hér eigi hann heima og aðrir séu ekki velkomnir – nema náttúrulega frúin! Ef óboðinn gestur ræðst inn á hans helgaða svæði getur söngurinn breyst í reiðilegt garg.
Fuglarnir nota líka röddina til að aðvara aðra fugla (t.d. unga sína eða maka) ef hætta er á ferðum. Félagslyndir fuglar sem halda sig í hópum láta hina vita ef þeir hafa fundið fæðu.
Hljóð hrossagauksins eru sérkennileg og fjölbreytt. Karlfuglinn steypir sér í loftinu og breiðir úr ystu stélfjöðrunum. Hljóð myndast þegar loft streymir um fjaðrirnar. Hann gefur líka frá sér hljóð sem myndast á venjulegan máta í hljóðfærinu við barkann.