Fróðleikur

Fuglaskoðun > Fylgst með fuglum

Það er gaman að fylgjast með atferli fuglanna.

Ein leið er að skoða nokkurn fjölda fugla og meta hvað þeir eru að gera. Hin leiðin er að fylgjast náið með einum eða mjög fáum fuglum.

Margir fuglar

Merktu við hvað fuglarnir sem þú sérð í fuglaskoðunarferð eru að gera (sjá eyðublað). Á eyðublaðinu eru þessi atriði:


Fuglinn:
Stendur
Snyrtir sig
Gengur/Hoppar
Étur
Sefur
Syngur
Situr
Flýgur
Drekkur
Baðar sig
Einn fugl

Þegar fylgst er náið með ákveðnum fuglum fær maður skýrari mynd af lífi þeirra. Það er margt að skoða og sérstaklega er gaman að fylgjast með um varptímann og þegar fuglarnir para sig. Við vitum ekki hvað bíður okkar þegar lagt er af stað til að skoða fugla, við verðum að vera viðbúin því óvænta og ekki borgar sig að hafa of miklar væntingar. Það er ekki öruggt að finna hreiður þó að varptími sé í fullum gangi.

Eins ættum við að hafa í huga að gefa okkur tíma til að skoða fugla fyrir utan skipulagðar fuglaskoðunarferðir. Maður er kannski bara að skreppa út í búð þegar á vegi manns verður þrastarungi sem er nýsloppinn úr hreiðri!


Hugsanleg rannsóknarefni:
Næringarnám

Hvað éta fuglarnir og hvernig fara þeir að?
Sjá umfjöllun og myndir um búsvæði.

Pörun og biðlun

Fuglar sýna oft sérstaka hegðun þegar þeir para sig og æxlast. Parið hneigir sig, sperrir og dansar.
Sjá umfjöllun um pörun.

Á varpstað

Áhugavert er að fylgjast með hvernig fuglarnir helga sér óðal og verja það.
Ekki er síður skemmtilegt að fylgjast með fjölskyldulífi fuglanna, hvernig þeir hugsanlega skiptast á að liggja á eða bera mat í ungana.
Einnig er gaman að fylgjast með illa fleygum ungum æfa sig!
Sjá umfjöllum um lífsferil.

Hópatferli

Í fuglahópi eiga sér stað samskipti innan hópsins sem vert er að gefa gaum. Einstaklingar geta til dæmis rifist um fæðu eða kankast á. Það er líka áhugavert að greina einstaklingsmun innan hóps, til dæmis snjótittlinga. Sumir eru áræðnari en aðrir og sitja eftir þegar styggð kemur að hópnum. Gaman er að fylgjast með þegar fuglar nátta sig og safnast saman á ákveðinn stað.
Sjá umfjöllun um hópamyndun.

Flug

Hvernig fljúga fuglarnir? Fljúga þeir beint eða eftir krókaleiðum? Svífa þeir eða blaka þeir vængjunum ótt og títt? Tengist þetta lögun vængjanna?
Sjá umfjöllun um flug.