Fróðleikur

Fuglaskoðun > Að þekkja fugla

Það sem hjálpar manni að þekkja fuglana er að taka eftir ákveðnum atriðum:

Líkamsbygging og litur

Mikilvægt er að horfa vel eftir útliti fuglsins og séreinkennum þegar við greinum fugla til tegundar. Litur er áberandi einkenni. Rauðleit bringa rauðbrystings segir okkur til dæmis að þarna fer rauðbrystingur en ekki til dæmis stelkur! Sumar tegundir hafa mjög afgerandi einkenni eins og auðnutittlingurinn með sinn rauða blett á höfðinu eða lundinn með skrautlegan gogg.

En það er ekki bara liturinn sem við notum til að aðgreina tegundir. Margir fuglar hafa svipaðan lit og þá verður að horfa til líkamsbyggingar og stærðar. Lóuþræll og heiðlóa eru glettilega lík á litinn og sama má segja um ýmsar andakollur. Líttu til dæmis á gargönd og stokkönd. Hvernig má greina þær í sundur? Hver er munurinn á silfurmáfi og stormmáfi? Lögun goggs, stéls, vængja, hlutfallsleg stærð höfuðs, almennt líkamslag (kubbslegt eða nett) eru þannig atriði sem fuglaskoðari horfir á til viðbótar við litinn.

Stærð

Það er stundum erfitt að meta stærð fugla en það kann að auðvelda greiningu fuglsins að bera hann í huganum saman við þekkta fugla, svo sem hrafn, lóu eða þröst.

Við hvern fugl hér á fuglavefnum kemur fram hversu stór fuglinn er: lengd, þyngd og vænghaf. Gott væri að skoða þessar upplýsingar áður en farið er í fuglaskoðunarferð. Veldu þá fugla sem þú átt von á að sjá og berðu þá saman við hrafn, lóu og þröst. Hugsanlega getur þú raðað fuglunum. Taktu samt ekki of marga fugla í einu. Þetta lærist smám saman.

Dæmi: Stelkur er stærri en skógarþröstur en álíka „langur“ og heiðlóa. Stelkur er þó með minna vænghaf en lóan, er nettari og léttari.

Víða eru til söfn uppstoppaðra fugla. Gott er að skoða þau af gaumgæfni. Uppstoppaðir fuglar geta ekki flogið! Eitt sem þú getur einmitt gert er að bera saman stærð fuglanna.

Staðsetning

Fuglar halda sig mest í sínu kjörlendi. Það veitir okkur nokkrar upplýsingar að vita hvar fuglinn er sem við viljum greina. Fljótt á litið gæti okkur sýnst að við sæjum teistu á túni. Það getur þó ekki passað, því teista heldur sig ávallt við sjóinn. Þegar við reynum að greina fuglinn getum við því útilokað teistuna. Líklegra er að fuglinn sé tjaldur!

Þekking á því hvar fuglarnir lifa getur þannig hjálpað til við að greina fugla. Upplýsingar um búsvæði fuglanna kemur fram við hvern fugl hér á fuglavefnum. Skoðaðu einnig fróðleik um búsvæði.

Atferli

Menn hafa tekið eftir að fuglar bera sig mismunandi til og hegða sér ólíkt. Sumar tegundir hafa tileinkað sér eins konar kæki, eins og stelkur og steindepill sem bukka sig sífellt. Svo er hegðun sem óhjákvæmilega tengist því búsvæði sem fuglarnir velja sér. Ef við hugsum til dæmis um fugla í fjöru getum við þó séð mjög ólíkt háttalag þeirra. Sendlingur heldur sig í stórum hópum, sandlóan er oftast stök. Jaðrakan stingur goggnum á kaf í leirinn eftir æti, tjaldurinn fær sér skelfisk á yfirborðinu. Þannig mætti halda áfram. Þegar við kynnumst fuglunum í fuglaskoðun lærum við smám saman að þekkja hegðun þeirra og það er eitt af því sem hjálpar okkur við greiningu fuglanna.

Hljóð

Sumir eru næmir á söng fuglanna og læra fljótt að greina hann. Það er gott að þekkja hljóðin þegar út á mörkina er komið. Hljóð og söngur er jú eitt af einkennum fuglsins sem hægt er að nota til að greina hann til tegundar. Þú getur hlustað á söng fuglanna hérna á fuglavefnum og einnig reynt að spreyta þig á að þekkja hljóðin. Það er auðvelt að læra að þekkja sérstakan söng. Flestir læra snemma að þekkja dirrindí lóunnar og hnegg hrossagauksins. Viltu bæta fleirum við?