Fróðleikur

Atferli > Farflug

Fuglarnir búa yfir þeim einstaka hæfileika að geta flogið. Því geta þeir hæglega valið sér góðan stað til að vera á og einnig flutt sig um set þegar aðstæður breytast. Aðalatriði er að nóg sé af fæðu, en einnig skiptir veður og öryggi miklu máli.

Það kostar fuglana mikla orku að fljúga á milli landa. Ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri hjá þeim tegundum sem teljast til farfugla.

Flug farfuglanna

Á vetrarstöðvunum er mildara veður og meiri fæða en á norðlægari slóðum yfir veturinn. Á Íslandi gætu farfuglarnir ekki lifað af veturinn! En hvers vegna koma þá fuglarnir til Íslands yfirleitt? Jú, það eru ýmsir ókostir við suðrænu löndin. Þar eru fleiri fuglar og samkeppni er um fæðu og pláss. Þar eru fleiri rándýr og einnig eru þar stundaðar meiri veiðar. Sumarhitar og þurrkar hafa ekki alltaf góð áhrif. Íslensk sumur eru betri. Þar er gnægð fæðu, víðátta og fáar ógnir. Þar er gott að vera og ala upp unga!

Við sjáum fuglana hópa sig á haustin. Þá eru þeir að byggja sig upp fyrir langflugið og einnig bíða þeir saman eftir ákjósanlegu veðri. Fuglar virðast næmir á veðrið og geta spáð fram í tímann. Það skiptir þá miklu að hafa meðbyr. Hraðskreiðar lægðir hafa þó oft komið farfuglum í bobba, tafið för þeirra þannig að orku þrýtur eða leitt þá af leið.

Enginn fugl í heiminum ferðast jafnlanga leið á milli varp- og vetrarstöðva og krían. Flugleiðin frá varpstöðvum á norðurhjaranum suður að ísbreiðunum við Suðurskautslandið getur verið rúmlega 15 þúsund km og þessa vegalengd fer fuglinn tvisvar á ári. Á Vísindavefnum er grein um flug kríunnar. Skoðaðu greinina.