Fróðleikur

Lífsferill > Varp, hreiður og klak

Fugl sem liggur á færir eggin af og til þannig að þau sömu séu ekki alltaf úti við jaðrana. Þar er ekki jafnhlýtt og nær miðju. Til að unginn þroskist vel í egginu er einnig mikilvægt að snúa því.

Það er misjafnt eftir tegundum hvort foreldrarnir annast báðir egg og unga. Umönnunarstörfin eru krefjandi og stundum ræður ekki einn fugl við þau. Þá hjálpast þeir að, til dæmis með því að karlfuglinn færir heim fæðu, eða foreldrarnir báðir og skiptast þá á að liggja á. Í öðrum tilfellum yfirgefur karlinn varpstaðinn þegar líður á varptímann. Hjá óðins- og þórshönum er þessu öfugt farið, kvenfuglinn fer í burtu. Hrossagaukspar skiptir með sér ungunum og fer svo hvort sína leið.

Sjá má að mismikið er lagt í hreiðurgerð. Sumar tegundir fugla verpa hreinlega beint á klett eða í litla skál sem þeir hafa mótað í mel eða gróður.
Aðrar tegundir flétta listafallegar körfur. Stundum er það liður í biðlunaratferli að karlfugl flétti körfu sem kvenfuglinum er ætlað að heillast af - og um leið eigandanum.
Oft er mýkra efni næst eggjunum og algengt er að fuglarnir reyti af sér dún til að setja í hreiðrið til einangrunar. Þetta er sérstaklega áberandi hjá æðarfuglinum.