Fróðleikur

Atferli > Ratvísi

Fuglar eru ratvísir. Þeir nota fjölbreyttar aðferðir við að finna sína leið. Aðstæður geta ráðið því hvaða aðferð beitt er. Þannig er til dæmis erfitt að taka mið af sólinni í skýjuðu veðri eða myrkri! Vísindamenn hafa gert ýmsar rannsóknir á því hvernig fuglarnir rata. Til að ákveða stefnu notfæra fuglar sér sól, stjörnur og segulsvið jarðar. Til að ákveða nákvæmari staðsetningu miða fuglarnir sig við ýmiss konar kennileiti, bæði sýnileg og eðlisfræðileg (t.d. lykt, hljóð og þyngdarkraft). Hæfileikinn til að rata er að hluta til meðfæddur en fuglarnir þurfa einnig að læra á umhverfi sitt og taka mið af reynslu.
Enn er margt ókannað um ratvísi fugla.

Stari á flugi

Stálpaðir staraungar sem teknir eru síðsumars af varpstöðvum sínum og sleppt fjarri þeim ná ekki að fljúga til vetrarstöðvanna. Þeir hefja flugið og leiðin sem þeir fara er nákvæmlega í sömu stefnu og nákvæmlega jafnlöng og félagar þeirra fara sem ekki voru teknir af varpstöðvunum. Leiðin er þeim meðfædd! Að vori komast þeir klakklaust til baka á varpstöðvarnar – þeir fara einfaldlega sömu leið og þeir komu og koma við á staðnum sem þeir voru fluttir á!

Dúfur geta ratað heim þó að skyggni sé nánast ekkert. Sé settur á dúfu lítill segull sem ruglar skynjun hennar á segulsviði jarðar lendir hún í vandræðum ef skyggnið er ekkert. Sjáist til sólar kemst hún auðveldlega heim.

Á Vísindavefnum er lýst tilraun þar sem sýnt er fram á að fuglar nota segulsvið jarðar sem áttavita.
Skoðaðu greinina.